Smá grill.


Jebbs þá er dagur komin að kveldi.

Við vorum að koma heim úr smá svona grillveislu hjá Nonna og Sessu. Vorum þar saman systkinin og slatti af börnunum okkar. Frábær matur eins og venjulega og Þröstur bróðir spilaði á nikku meðan Nonni grillaði. Þetta var bara fínt kvöld.

GrillBræður mínir við sín áhugamál.


Sjómannadagur.

Það var á sjómannadeginum árið 1955 sem pabbi og mamma giftu sig. Mamma dó fyrir aldur fram árið 1984 á sjómannadegi. Núna á eftir munu þau hvíla á sama stað hér í kirkjugarðinum á Hornafirði.

P6010003P6010010

 

En mig langar nú að óska öllum sjómönnum til hamingju með daginn í dag.


Dagur tvö á Lóninu....

Í morgun ræsti ég frúnna frekar snemma. Hún var nú ekkert ósátt við það því hún ætlaði að kíkja með mér í vinnuna. Það var dumbungsveður og súld þegar við brunuðum af stað á gamla Thunderbird. Vorum fyrst á staðinn af staffinu, en skömmu seinna mætti æðstráðandi í eldhúsinu hún Bogga. Ekki þurftum við lengi að bíða eftir kaffisopanum hjá henni. Smátt og smátt týndist restin af liðinu inn til starfa.

Skúmur einn sem hefur haldið til við skálann í ein 17-18 ár vakti mikla athygli meðal ferðamanna og margar myndir voru teknar af dýrinu.

Fyrsta ferð var farinn klukkan 11. það var hópur af Englendingum. Svanhildur sigldi með okkur og Helga Lucya var gædinn í ferðinni. Það fór svona undrunarkliður um hópinn þegar ég sullaði Dreka út í Lónið. Hætt var að rigna en dimmt var yfir. Fólkið var mjög ánægt með ferðina.

Siggi litli kom út á Lónið skömmu seinna á Klaka. Dóttir hans sigldi með okkur í allan dag. Ferð númer tvö hjá mér var með Þýskan hóp. Þegar ég stoppaði úti á lóninu og Helga hafði lokið því að segja fólkinu frá Breiðármerkurlóni og næsta nágrenni muldi hún niður klaka sem okkur var fært um borð tók fararstjórinn fram eðalfínt Skoskan drykk, og fengu Þjóðverjarnir að bragða á honum. Kallast þessi drykkur á íslensku Skoti á Vatnajökli, þó að jökullinn sé í drykknum. Ekki var mér boðið að smakka, enda var ég við stýrið. Uppúr klukkan eitt hægðist á og sólin lét sjá sig. Við starfsfólkið tókum til hendinni og sumir fóru að mála, aðrir að setja saman borð og ýmislegt viðhald var framkvæmt.

Dagurinn í dag var bara fínn og ég held að allir hafi farið sáttir frá Jökulsárlóninu.

Sólskríkjann okkar.

 


Já margt er,,,,,,,,,,

Já þetta er skrítið fólk þessir amríkanar. Lítt má gagnrýna þeirra gjörðir, en þeim leyfist að gagnrýna aðrar þjóðir fyrir allt og ekki neitt. Rétt eins og hrefnuveiðar okkar Íslendinga. En líta þeir í eigin barm? Og skoða höfrungadráp sinna eigin landa? Neee æ dónt þínk só,,,.
mbl.is Rice tók ásakanir um mannréttindabrot óstinnt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naaa...

Héðan er bara ekkert að frétta eins og er.

Sá unhvað á mbl.is að jörð hafi skolfið í nágrenni við Selfoss.

Svo er nú það bara. 


Sitt lítið........

Sá gamli hefur nú ekki frá miklu að segja í kvöld. Var að koma heim af golfvellinum, spilaði átján holur með Sigga, Gesti og Hjálmari. Ég var að slá ágætlega en það púttin hjá mér voru afleit. Sem sagt í heildina var bara léleg spilamennska hjá mér.

Fer á Jökulsárlónið að sigla á laugardaginn, byrja svo á fullu í siglingunum á mánudaginn.

Núna á sjómannadaginn verður smá athöfn í kirkjugarðinum. Þá verður gengið frá kerinu í leiðið hjá mömmu. Síðan ætlum við systkinin ásamt mökum upp í sumarbústað og hafa svona vinnudag. Gera þá hluti sem pabbi og Halla voru vön að gera á þessum tíma.

 


Hagsmunir já....

Ég tel mig nú vera svona hagsmunaaðila. Ekki var ég spurður ráða. En ég hefi nú lítt á móti því að geta versla mér kjötmeti sem ekki er á unhvurju okurverði......
mbl.is Matvælafrumvarpi frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baukurinn......

Hulda systir bjallaði í mig í vinnuna í dag. Nú ég svaraði auðvitað símanum. Spurningin sem hún bar upp var hálf einkennileg. ~Hefurðu nokkuð tök á því að koma með Baukinn á móti mér?~ Ha hvaða bauk sagði ég. Nú Baukinn sem pabbi og Halla áttu sagði hún. Þá kveikti gamli maðurinn á perunni. Hún var að tala um húsbílinn. Ég taldi nú allar líkur á því að ég gæti nú skondrast þetta, en spurði hana hvernig ég ætti að komast heim aftur. Nú Halla ætlar að elta þig vestur eftir og fara með þig til baka austur sagði Hulda.

Það er sem sagt nánast búið að selja bílinn. Ferðin vestur á Klaustur sóttist ágætlega þó það væri fjandi hvasst frá Kvískerjum að Freysnesi. Halla og ég vorum komin heim núna rétt fyrir klukkan hálf tíu.

En núna er komin tími fyrir gamla manninn að leggjast aðeins í sófann og glápa upp í loft svona fyrir svefninn.

Baukurinn...


Glacier Lagoon... eða þannig.

Jebbs rétt um hálf níu í morgun þá mætti hann Palli hér fyrir utan Dagsbrún. Ég var eins tilbúin og ég gat. Brunuðum við sem leið lá vestur á Mýrar og pikkuðum upp hana Helgu, sem átti að vera gædinn okkar í dag. Ekki man ég nú hvenær við vorum komin vestur að Reynivöllum, enda orðin pínu stressaður yfir því hvað ég væri eiginlega að fara útí. Ja í það minnsta gat ég huggað mig við það að veðrið var fallegt. Eftir stutt stopp var haldið áfram vestur á Jökulsárlón. Fengum okkur smá morgunkaffi og síðan fór ég með Sigga litla að kíkja á bátana. Skoðað í mótorhúsið og mér kynnt stjórntæki og annað sem talið var gott að ég vissi um.

Ekki leið á löngu uns ræst var út í fyrstu ferð. Ég fór um borð og naut góðrar kennslu frá Sigga. Hann fór fimum höndum um stjórntækin og ekkert hik á drengnum. Allt gekk þetta áfallalaust og farþegarnir okkar virtust mjög ánægðir með túrinn. Ég fékk sko að fara tvær svona salíbunur þar sem ég gat horft á Sigga og reynt að átta mig almennilega á þessu dralli. Í þriðja túrnum er við vorum rétt komin á flot þá fékk ég að taka við stjórninni. Palli var líka úti, og strákarnir á Zodiakbátunum höfðu nóg að gera við að ryðja brautir og að transporta með Helgu gæd á milli. Ferðin gekk vel og ég náði aftur landi og kom túristunum aftur upp að skála.

En nú kom að því að reynt yrði á þann gamla. Nú skyldi sá gamli fara í jómfrúarferðina án þess að hafa lærimeistarann um borð. Mesta furða minns var bara ekki með hnút í maganum og ekkert stressaður. Ferðin gekk vel. Valdi sænski sá um að ryðja mér braut á köflum og gædinn hún Helga droppaði svo um borð þegar við vorum komin út á lónið. Ég fór eina ferð í viðbót og var þá komin vestan kaldi og töluvert um að smærri jakar væru að þvælast í vegi fyrir mér. En Zodiakstrákarnir stóðu sig með prýði og allt gekk það upp.

Farþegafjöldinn okkar í dag voru 191. Þetta er allt að rúlla í gang og ég byrja þarna um mánaðarmótin. Mér líst vel á þetta og krakkarnir sem eru að vinna þarna á Lóninu er mjög fín og þetta kemur til með að verða nokkuð skemmtilegt trúi ég. Gengið til skips,,,,,,,,,

 


Starfskynning í dag....

Sólin glottir út í annað hér á Hoddnafirði og hitamælirinn hér í Dagsbrún sýnir 14,2°.

Nú er gamli maðurinn að gera sig kláran til að fara í starfskynningu vestur á Jökulsárlón. Þar kem ég til með að vera í allan dag að kynna mér meðferð á svona hjólabát. Siggi litli í Lundi mun líkast til verða minn lærimeistari. Þetta leggst bara vel í mig. Ég ætla nú að hafa með mér myndavélina svona ef ég sé nú unhvað sem ég hefi ekki séð áður.

Eigið bara góðan dag fólk. Hver veit nema ég geti smellt inn myndum frá lóninu í kvöld.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband