Fljúgandi skítadreyfarar................

Í dag byrjaði ég að vinna aftur eftir smá frí. Það var nú bara alveg ágætt. En hryllingurinn sem fylgir vorinu er mættur, sumum til mikillar gleði en ekki mér. Já bölvuð krían er heldur betur mætt á svæðið og drullar yfir bíla og fólk sem aldrei fyrr. Nú er sem sagt komið að því að þurfa að tjöruþvo bílinn á hverjum degi til að losna við kríuskítinn. Sem betur fer er lakkið á bílnum okkar ónýtt. Maður kæmi nú fáu í verk ef maður ætti svona nýlegan bíl með fínu lakki. Líkast til sæti maður uppi á húsþaki með haglarann og fuðraði niður þessa fljúgandi skítadreifara svona í það minnsta átta tíma á dag.

En svona er lífið, og lítt sem ég get gert við þessu ómaklega skítkasti.........

Dagur komin að kveldi....

Jæja.

Í dag fór fram útförin hans pabba.

Þetta var falleg athöfn.

Tvöfaldur kvartett sem ber nafnið Stakir Jakar sungu Hótel Jörð og 23. Davíðssálm. Þetta var einstaklega fallega sungið hjá þeim, og kann ég þeim miklar þakkir fyrir.

Boðið var uppá smá svona snarl á Hótelinu eftir athöfn og komu þar saman ættingjar og vinir sem komu víða að. Okkur þótti vænt um að hitta allt þetta fólk.

Og í kvöld þá höfðum við smá svona samverustund á Hafnarbrautinni. Þar komu saman við systkinin ásamt mökum, börnum og barnabörnum.

Við sem eitt sinn vorum krakkarnir í Áshlíð viljum þakka öllum þær kveðjur og hlýhug sem okkur hefur verið sýnt.

 

KistanBlóm


Villi Bósa

Í dag á æskuvinur minn afmæli. Kallinn er búsettur á Eskifirði.

Já hann Villi Bósa er orðin hund gamall. Heil 48 ár liðin frá fæðingu hans. Ég prufaði nú að bjalla í kappann í hádeginu, en hann var víst á næturvakt og svaf bara á sínu grænasta.

 

Ætli ég hendi ekki inn stöku sem Eiríkur Hansen Skagfirðingur setti saman og færði mér fyrir nokkrum árum.

 

Það verður þörf á whisky fleig,

við að eldast svona.

Ekki þó í einum teig,

ætla ég að vona.

 

Nú og fyrst ég er byrjaðu á þessu þá læt ég fylgja hér annað eftir Kristján Runólfsson sem einnig er Skagfirðingur og unnum við saman um tíma á Króknum..

 

Vinskap þinn er vert að geyma,

viðmót þitt er ljúft að kenna,

ekki er slíku unnt að gleyma,

aldrei mun í spor þín fenna.

 

Víða að koma vinir kærir,

og vitja þín með gleði sál,

ljúfar stundir lífið nærir,

lyftum bikar! Þína skál.

 

Ég á nú ekki vona á að Villi lesi þetta, en ég óska nú kallinum til lukku með þennan háa aldur.


Lónið.....

Já það er víst kominn 2. maí.

Fátt að frétta héðan. Búið að vera fjölmenni hér á bæ og bara hið besta mál.

Baltó litli er búin að vera unhvað veikur síðustu daga, veit ekki hvað er að angra hann. Ég fór með báða hundana upp í Laxárdal í Lóni í dag. Bæði til að láta þá fá hreyfingu, og líka til að vera aðeins einn með sjálfum mér. Þetta var óskaplega notalegt. Hundarnir voru ekkert að trufla mig. Þeir bara fóru út um hvippinn og hvappinn og hlupu nokkra kílómetra. Léku sér við heiðargæsir og lóur. Þeir létu jólahestana alveg í friði. Ég tók nokkrar myndir í þessari ferð.

Okkur er boðið í mat til Jóns og Duggu í kvöld.

JólahesturTvær gæsir á flugi.Jólahestar.Gæsirnar mínar.


jamm, svo er nú það.

Í gærdag var kistulagning. Litlu dýrin mín komu að norðan eftir langt og strangt ferðalag. Voru búin að sitja föst á Þverárfjallinu í rúmar 40 mínútur. Já hann nafni minn dúmmaði bílnum sínum á kaf í snjóskafl sem var staddur á miðjum þjóðveginum. En jú þau rétt náðu að komast í tæka tíð fyrir athöfnina. Vissulega var þetta erfið stund, maður taldi sig vera reiðubúin fyrir þetta. En svo var ekki. Sólveig mín stóð sig með prýði og reyndar allir, Brimdís Klara brotnaði reyndar saman og grét mikið.

Það er nú gaman að hafa öll börnin hér á staðnum, þó tilefnið hefði nú mátt vara annað.


Bátarnir.

Set hér inn þrjár bátamyndir.

Akurey SF 52Skógey SF 53akurey2


119 ára afmæli.

Já það var árið 1979 þá var haldið uppá 119 ára afmæli um borð í Skógey SF. Nánar tiltekið 1 mars. Afmælisbörnin voru þeir tvíburar Haukur og Gústi. Sá þriðji var Birgir Vilhjálmsson. Allir eru þeir horfnir á braut í dag.

sksk1sk2sk3sk4

 


Upprifjun.

í brúnni Langar að setja þessa mynd hér inn. Hér er ~langi~ kallinn að búa sig í að leggja reknet. Hér var pabbi í sínu rétta umhverfi. Aðeins að líta á kompásinn til að athuga stefnuna. Gæti trúað að myndin sé tekin 1976.

Myndin er fengin úr bókinni Fiskisagan Flýgur, og biðst ég afsökunar á að stela henni. 


26. apríl.

26 apríl 1996 tapaði litla systir mín Hrefna Jóhanna sinni baráttu við krabbameinið. Það var svartur dagur fyrir okkur öll.

Ætli pabbi hafi barist svona vel til að ná þessum sama degi?

Mér er spurn? En ég veit vel að ég fæ ekkert svar.


Söknuður...

Þegar ég var lítill drengur átti ég sterkasta pabba í heimi. Eða svo var það í minningunni hjá mér. Hann var skipstjóri á stórum bát að mér fannst. Stundum fékk ég að koma með honum á bryggjuna og fara um borð í Akureyna, það þótti mér guttanum mikið ævintýri. Seinna fékk ég þess heiðurs notið að vera til sjós með föður mínum. Fyrst í eina viku á reknetum á Akurey árið 1976. aftur fór ég til sjós með honum árið 1978. áttum við mörg góð ár saman á Skógey SF. Allt þar til að hann fékk hjartaáfall. Á þessum árum þá fyrst náði ég að kynnast föður mínum vel, því á mínum yngri árum var hann lítið heima. Það var verið að allt árið.

 

Þegar ég lít til baka yfir öll þau ár sem við áttum saman átta ég mig á því að það var ekki nein vitleysa í litla guttanum mér að hann pabbi minn væri sterkur. Ég svo sem var nú búin að átta mig á því fyrir mörgum árum.

 

Í gærkvöld klukkan 23:25 skyldu leiðir okkar. Þessi sterki harði maður sem samt var einstakt ljúfmenni kvaddi þennan heim eftir harða baráttu við krabbamein. Það er svona mánuður síðan að hann vissi að hann var að heyja tapað stríð.

 

Elsku pabbi ég á eftir að sakna þín og þinna góðu ráða.

Haukur Run.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband