23.11.2008 | 11:06
Fjallapríl........
Jæja þá er maður búin að ganga nóg.
Á föstudaginn fór ég ásamt frænda mínum vestur á Steinadal í Suðursveit. Veðrið var fallegt og gott göngufæri. Ég byrjaði að ganga við Vindás og gekk sem leið lá inn að Klukkugili. Þaðan tók ég stefnuna upp með gilinu og stefndi á fjallstindana. Klöngraðist ég upp í rúmlega 600 metra hæð upp bratta hlíðina. Þetta var frekar erfið ganga þarna upp en vel þess virði. Náttúrufegurðin á þessu svæði er mikil, og að horfa úr þessari hæð niður í Hvannadalinn og yfir Hestgerðishnútuna heim að Höfn var bara flott. Því miður hafði ég ekki meðferðis myndavél þar sem nýja vélin mín er gölluð og er ég búin að senda hana til Ormsson til athugunar.
Svo í gær fór ég í aðra fjallgöngu. Klifraði ég upp á Skálafellshnútuna og gekk þar um svæðið í tæpa átta tíma. Því miður var takmarkað útsýni en ég náði nú samt til að virða fyrir mér Skálafellsjökul og Borgarhafnarheiði. Ekki sá ég nú eina einustu kind á þessu svæði. Ég hafði lofað henni Þóru frænku að svipast um eftir rolluskjátum. Það fór að snjóa á mig þarna þegar ég var á toppi hnútuna í tæplega 600 metra hæð. Illa gekk mér að finna greiðfæra leið niður aftur. Áttunum tapaði ég aldrei en svæðið er þannig að þú hefur eiginlega ekki nema 2-3 staði til að fara niður af fjallinu þarna austan megin. En ég hafði það nú af að komast niður. Svanhildur mín hafði nú haft á orði að ég mætti taka myndavélina hennar með í þessa ferð. Sem betur fer gerði ég það ekki því á niður leiðinni lenti ég í því að stíga á svellbólstur sem leyndist undir níföllnum snjónum og setti ég þar lappirnar upp til himins og skall niður á hrygginn. Hræddur um að illa hefði farið fyrir myndavél í bakpoka við þessa byltu.
Ég ætla nú að láta svona fjallapríl að vetri til eiga sig hér eftir.
Athugasemdir
,,Klífa skriður skríða kletta velta niður vera detta, hrufla sig á hverjum steini halda sári nái beini........." Ronni minn þetta er stórhættuleg iðja og láttu þetta þér að kenningu verða og farðu varlega.
Páll Jóhannesson, 23.11.2008 kl. 11:10
Uss,uss er allt í lagi með þig ? Þú verður að fara vel með þig Ronni minn svo þú hafir orku og getu til að sinna öðru
Helga Rós Sveinsdóttir, 24.11.2008 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.