24.10.2008 | 21:42
Haldið þið kjafti, ykkur kemur þetta ekki við......
Svo er nú það.
Í dag tók ég mig til og handeraði að ég taldi síðustu sjö gæsirnar sem ég átti á snúrustaurnum. Tók bara bringurnar og lifur og hjörtu því ég nennti ekki að setja reitingarvélina í gang. Hafði á orði við Sigurð Sexkant Svein Jón Ragnarsson Long að maður myndi nú ekki handera fleiri gæsir á þessu ári. En ég hafði víst rangt fyrir mér í þeim málum. Því við feðgar kíktum í sveitina og ætluðum að spreyta okkur á kvöldandarflugi. Engin kom öndin, en aftur á móti fékk ég stóran hóp af grágæs í flottu flugi yfir mig og lét ég vaða eitt skot á hópinn. Það var lyginni líkast. Í rökkrinu sá ég tvo fugla falla. En þegar farið var að sækja fuglana þá urðum við feðgar gáttaðir. Það höfðu fallið fjórar gæsir fyrir þessu eina skoti og hefi ég eigi náð þessum árangri áður. Þrisvar í haust hef ég náð að taka tvo fugla í skoti, en þetta er í fyrsta og líklegast síðasta skipti sem maður nær svona skoti. Nú held ég að maður sé komin með kjöt af rúmlega 90 gæsum í frost.
Annars er fátt að frétta. Höfðum nú hugsað okkur að vísitera norðurlandið þessa helgi en sökum slæms veðurútlits var því frestað. Við treystum nú varla Jeppa líkinu okkar í mikla ófærð. Þurfum fyrst að gefa honum mikið af bensíni svo hann verði nú stór og stæðilegur slyddujeppi.
Hann og ~sætasta~ stelpan ávörpuðu okkur vinnuveitendur sína í dag. En eins og oft áður skildi ég orðin en náði litlu samhengi. Komst samt að því að þau vildu ekki láta okkur sem sköffum þeim vinnuna vita hvaða skilyrðum þau hafi gengið að til að skuldsetja okkur í botn og rúmlega það.
En svona er þetta bara. Okkur kemur þetta ekkert við, né heldur útrásarmönnunum sem settu þjóðina í þessa klípu.
Athugasemdir
Hvurslags nýting er þetta kvekendönöm í kreppunni? Hirða bara bringur, hjörtu og levör. Skamm
Haraldur Bjarnason, 25.10.2008 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.