25.5.2008 | 20:18
Glacier Lagoon... eða þannig.
Jebbs rétt um hálf níu í morgun þá mætti hann Palli hér fyrir utan Dagsbrún. Ég var eins tilbúin og ég gat. Brunuðum við sem leið lá vestur á Mýrar og pikkuðum upp hana Helgu, sem átti að vera gædinn okkar í dag. Ekki man ég nú hvenær við vorum komin vestur að Reynivöllum, enda orðin pínu stressaður yfir því hvað ég væri eiginlega að fara útí. Ja í það minnsta gat ég huggað mig við það að veðrið var fallegt. Eftir stutt stopp var haldið áfram vestur á Jökulsárlón. Fengum okkur smá morgunkaffi og síðan fór ég með Sigga litla að kíkja á bátana. Skoðað í mótorhúsið og mér kynnt stjórntæki og annað sem talið var gott að ég vissi um.
Ekki leið á löngu uns ræst var út í fyrstu ferð. Ég fór um borð og naut góðrar kennslu frá Sigga. Hann fór fimum höndum um stjórntækin og ekkert hik á drengnum. Allt gekk þetta áfallalaust og farþegarnir okkar virtust mjög ánægðir með túrinn. Ég fékk sko að fara tvær svona salíbunur þar sem ég gat horft á Sigga og reynt að átta mig almennilega á þessu dralli. Í þriðja túrnum er við vorum rétt komin á flot þá fékk ég að taka við stjórninni. Palli var líka úti, og strákarnir á Zodiakbátunum höfðu nóg að gera við að ryðja brautir og að transporta með Helgu gæd á milli. Ferðin gekk vel og ég náði aftur landi og kom túristunum aftur upp að skála.
En nú kom að því að reynt yrði á þann gamla. Nú skyldi sá gamli fara í jómfrúarferðina án þess að hafa lærimeistarann um borð. Mesta furða minns var bara ekki með hnút í maganum og ekkert stressaður. Ferðin gekk vel. Valdi sænski sá um að ryðja mér braut á köflum og gædinn hún Helga droppaði svo um borð þegar við vorum komin út á lónið. Ég fór eina ferð í viðbót og var þá komin vestan kaldi og töluvert um að smærri jakar væru að þvælast í vegi fyrir mér. En Zodiakstrákarnir stóðu sig með prýði og allt gekk það upp.
Farþegafjöldinn okkar í dag voru 191. Þetta er allt að rúlla í gang og ég byrja þarna um mánaðarmótin. Mér líst vel á þetta og krakkarnir sem eru að vinna þarna á Lóninu er mjög fín og þetta kemur til með að verða nokkuð skemmtilegt trúi ég.
Athugasemdir
Ekki laust við að mig sé farið að langa í róður með þér............ hver veit nema ég heimsæki ykkur þangað í sumar?
Páll Jóhannesson, 25.5.2008 kl. 22:30
Bara velkominn Palli minn...
Runólfur Jónatan Hauksson, 25.5.2008 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.