24.5.2008 | 17:23
Landhelgislínudans.
Ég man nú enn þá tíð þegar ég var ungur og stundaði veiðar með fiskitroll annað slagið á gömlu Skógey. Hún var kölluð svona fjögurra mílna bátur. Ég man ekki málin lengur á henni en í það minnsta var hún of löng til að fá að fara inn að þremur mílum. Í vélarsalnum var Mirless Blackstone sem skilaði heilum 660 smáhestöflum.
Í dag eru breyttir tímar. Bátar sem eru ótrúlega öflug togskip fá að fara inn að 3 mílum. Allt í skjóli lengdarinnar. Vélaraflið tekið niður heil helling. Man ekki hvort miðað er við tæp 1000 hestöfl í dag. Og mörg af þessum skipum eru þannig útfærð að hægt er að bæta við aflið út í skrúfu frá ljósavélum. Þetta er allt saman löglegt, en mér finnst þetta siðlaust.
Ég hef þá skrýtnu skoðun að veiðar með fiskibotnvörpu eigi ekki að heimila innan við 12 mílurnar, en það er bara mitt álit. Varðandi athugasemd sem kom við færslu sem ég setti inn við frétt um meintar ólöglegar veiðar hjá Smáey VE, get ég lítið tjáð mig um. Veit ekki hvort algengt sé að Hornafjarðabátar stundi mikið veiðar við Vestmannaeyjar. En hitt veit ég að í gegnum tíðina hefur verið stundaður mikill línudans við Ingólfshöfðann. Bæði af snurvoðarbátum og trollbátum. Það væri lítið mál fyrir gæsluna að parkera þyrlu uppi á höfðanum þannig að hún sæist ekki frá sjó. Ég er hræddur um að það gæti farið frekar illa fyrir mörgum sem stunda línudansinn ef það væri gert.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.